Hipster kaffihús

Föstudagur 2. febrúar 2018 0

Cereal Killer Cafe  byrjaði sem litið kaffihús í London. Alan og Gary Keery áttu hugmyndina að opna kaffihús og bjóða eingöngu upp á morgunkorn eftir að hafa rekið sig á að geta ekki pantað það á veitingastöðum. Nafnið er auðvitað dálítið skondið þar sem það hljómar eins og serial killer.

Viðskiptavinir geta valið úr yfir 120 tegundum af morgunkorni sem koma víðsvegar að úr heiminum. Sjá matseðilinn hér. Það er iðulega röð út að dyrum og alveg örugglega þess virði að gera sér ferð þangað „when in London“. Góða helgi!

Tortilla Española

Mánudagur 22. janúar 2018 0

Góður vinur minn bauð mér í mat fyrir stuttu en hann hefur búið á Spáni í mörg ár og eldar alltaf ofboðslega góðan mat. Þetta kvöld gerði hann sveppasúpu og ekta spænska ommelettu.

Ég hef oft heyrt talað um þessa frægu eggjaköku og taldi hana ekkert mikið frábrugna öðrum þar til ég smakkaði. Þessi var einstaklega „fluffy“ og æðislega bragðgóð. Hér er ágæt grein og myndband um hvernig er hægt að ná góðum árangri.

Mynd: Country Living

SÚRKÁL OG KIMCHI

Föstudagur 19. janúar 2018 0

Fyrir nokkru síðan fór ég að bæta súrkáli inn í mataræðið þar sem það er mjög hollt. Súrkál hjálpar til við að byggja upp og viðhalda hollri magaflóru sem er sagður grunnurinn að góðri heilsu. Súrkál og Kimchi er stútfullt af góðum bakteríum. Ég byrjaði á því að prófa mjög góða tegund á GLÓ. Seinna fann ég nýja tegund úti í matvöruverslun. Það eru meira að segja til ódýrir pokar í grænmetiskælinum úti í næstu matvöruverslun. Ég hef keypt þannig poka og einfaldlega sett súrkálið í glerkrukku og inn í ísskáp. Seinna fann ég grúppu á Facebook og áhuginn minn jókst. Grúppan heitir Súrkál og annað mjólkursýrt grænmeti þar er fólk að pósta ýmsum upplýsingum um hvernig það er hægt að útbúa súrkál.

Garðyrkjufélag Íslands hefur verið með áhugaverð námskeið um gerð súrkáls. Á námskeiðunum er þátttakendum kennt að útbúa súrkál og fá einnig að smakka á 15-20 tegundum af súrkáli. Ég hef ekki komist en er að fylgjast með því mig langar mikið að skrá mig.

Mig langar að prófa mig áfram og er að hugsa um að prófa að búa til Kimchi sem er svipað nema með chili sem sagt sterkt og gott. Ég ætla að prófa þessa uppskrift og sjá hvernig mér tekst til. Þetta er gott að eiga inni í ísskáp sem meðlæti.

Mynd: Jenny Mustard

CAESAR SALAT

Miðvikudagur 10. janúar 2018 0

 

Upp á síðkastið er ég búin að geta keypt lífrænt romain salat í Costco. Mér finnst romain salat alveg rosalega gott að ég gæti nánast borðað það daglega. Ég kaupi 2-3 poka í einu og útbý salat fyrir mig og dóttur mína þannig við getum tekið með okkur sem hádegismat.

Ég er með þetta afar einfalt og mér finnst það mjög gott þannig. Eina sem ég nota eru salatblöðin, Follow Your Heart vegan caesar dressing, vegan parmesan og stundum heimagerðir brauðteningar. Þetta útbý ég á morgnana og tekur ekki nema 2-3 mínútur.

Romaine salat inniheldur: A vitamin, C vítamin, trefjar, biotin, járn, omega-3 og margt annað gott.

Mynd: Bon Appétit

VEGANÚAR

Föstudagur 5. janúar 2018 0

 

Í byrjun árs er veganúar og ég er að taka þátt.

Ég hef verið grænmetisæta í nokkur ár en þar á undan borðaði frekar lítið kjöt. Ég hef borðað fisk af og til þegar mér hefur verið boðið í mat en lystin hefur þó minnkað. Ástæðan er einfaldlega sú að ég er dýravinur og hef mikinn áhuga á hollu mataræði. Ég hef gaman af því að lesa rannsóknir um hollt mataræði og allt það nýjasta sem ég kemst yfir. Ég er hætt að nota kúamjólk, nota lítið egg en alltaf verið dálítið veik fyrir ostum þannig það er aðeins erfiðara að taka þá út.

Ég er með of háan blóðþrýsting og vanvirkan sjaldkirtil sem ég þarf lyf við. Þess vegna langar mig að bæta mataræðið enn frekar og vonast til að geta hætt á lyfjunum. Þetta gerist ekki á einni nóttu en ég geri mitt besta að borða hreint og minnka allar unnar matvörur og sykur.

Fyrir ykkur sem eruð að velta fyrir ykkur að minnka eða hætta í kjötneyslu, fiski og/eða mjólkurvörum þá er um að gera að kynna sér það með því að  t.d. skrá sig í Vegan Ísland grúppuna á Facebook eða horfa á eitthvað af þessum fínu heimildarmyndum sem eru í boði.

Nýjasta heimildarmyndin heitir „Vegan 2017“ og er á YouTube.

Myndir: Taste