SQUASH PASTA

Mánudagur 12. febrúar 2018 0

Þetta er einn af uppáhalds pastaréttunum mínum akkúrat núna. Í réttinn þarf gott pasta eins og t.d. þetta í brúnu pokunum frá Rustichella d´abruzzo. Spergilkál, „butternut“ grasker, egg, parmesan, olívuolíu, rosmarín, timían, sjávarsalt og nýmalaðan pipar.

Ég byrja á því að afhýða graskerið og skera í bita. Set graskerið í ofnskúffu og helli yfir ólívuolíu og krydda. Það er best er að nota ferskar kryddjurtir en ef ég á þær ekki til þá nota ég þurrkaðar. Það er fínt að setja graskerið inn í ofn á ca. 180° í 35-40 mínútur. Mér finnst gott að hafa það vel ristað.

Á meðan graskerið er í ofninum sker ég spergilkálið í bita, sýð vatn fyrir pastað og raspa niður parmesan ostinn. 10 mínútur áður en graskerið er tilbúið set ég pastað út í vatnið og rétt áður en pastað er tilbúið ca. 2-3 mínútum áður set ég spergilkálið í vatnið með pastanu. Ég tek alltaf 1/2 dl af soði og set til hliðar áður en ég sigta vatnið frá. Pastað og spergilkálið fer í stóra skál og svo brýt ég eggið strax yfir og mixa vel saman. Síðan fer „butternut“ graskerið út á (stundum er gott að setja smá af soðinu yfir pastað). Að lokum fer parmesan osturinn yfir og allt mixað saman. Þetta ber ég fram með hvítlauksbrauði sem ég geri oftast sjálf.

Engar athugasemdir enn.

Svara

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *