Augnmaski og augnkrem

Mánudagur 29. janúar 2018 0

Ég var búin að fara nokkrar ferðir í The Body Shop til að athuga hvort nýi augnmaskinn úr Drops of Youth línunni væri kominn. Ég hafði lesið um hann og var spennt að prófa. Síðan ég var unglingur hef ég alltaf átt vörur frá The Body Shop. Mér líkar stefnan þeirra og var glöð þegar ég heyrði að S-Ameríska fyrirtækið Natura hefði keypti Body Shop síðastliðið sumar. Þeir segjast ætla að halda uppi stefnu Aniku Roddick sem er frábært og fyrirtækið á líklega meira sameiginlegt með The Body Shop en L’Oreal.

Það eru nokkrar vörur sem ég kaupi í The Body Shop og nota að staðaldri og einnig finnst mér gaman að prófa nýjungar. Ég hef átt nokkrar vörur í Drops of Youth línunni eins og Youth Essance-Lotion, Bouncy Sleeping Mask og Drops of Youth Cream.

Drops of Youth maskinn er í raun líka augnkrem sem er hægt að nota kvölds og morgna. Formúlan er létt og hefur ferskan ilm. Áferðin minnir helst á memory foam eða hlaup þannig þegar maður setur fingur í krukkuna (auðvitað hreina) þá kemur ekki of mikið heldur mátlega mikið til að renna í kringum augun.  Hlaupið gengur vel inn í húðina en skilur eftir þægilega mjúka filmu sem gerir húðina mjúka viðkomu. Annað innihald er t.d. gúrkuseyði og þrjár tegundir af plöntu stofnfrumum.

Mér finnst gott að eiga tvenns konar augnkrem. Eitt feitara og annað léttara sem ég nota á morgnana. Ef ég er þreytt þá finnst mér gott að geyma kremið í kæli og ef húðin er þurr tek ég það gjarnan með í snyrtibudduna og ber það yfir farðann. Ég er búin að nota maskann í tvær vikur og líkar vel. Mér finnst hann fríska upp á augnsvæðið, mýkja húðina og draga úr þrota.

Engar athugasemdir enn.

Svara

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *